Keli hittir naglann á höfuðið

ég veit að þetta er langt en í þessari grein kemst gamli herbergisfélagi minn að kjarna málsins...

Af menningarástandi á Héraði

[Þessi grein birtist í Austurglugganum í dag.]

Fyrir rétt rúmum áratug bjó ég hér á Egilsstöðum þar sem ég stundaði nám, fyrst við Alþýðuskólann á Eiðum og síðar við Menntaskólanum á Egilsstöðum. Á þessum árum sóttist ég, líkt og margir aðrir, eftir afþreyingu, skemmtun og menningu til að lyfta andanum upp úr gráma hversdagsins. Og þó ýmislegt væri hægt að gera innan veggja skólans dugði það ekki til að uppfylla þarfirnar.
Það var fastur og sjálfsagður punktur í tilveru ungs fólks á Héraði á þessum tíma að eiga þess kost að skella sér á böll í heimabyggðinni öðru hvoru. Og væri þeim ekki til að dreifa um helgar gátu skemmtanaglaðir sótt veitingahús/skemmtistaði sem þá voru jafnan tvö til þrjú í rekstri. Þess utan var hægt að bregða sér í bíó eða fara á leiksýningar annað hvort hjá Leikfélagi Fljótsdalshéraðs eða hjá Leikfélagi menntaskólans, en bæði félögin störfuðu þá af aðdáunarverðum krafti. Leikfélag Fljótsdalshéraðs setti t.a.m. á þessum árum upp viðamikil og metnaðarfull verk sem nutu verðskuldaðrar athygli. Félagið var þá líklega eitt öflugasta áhugaleikfélag í landinu.
Smærri uppákomur voru líka alltíðar og oft ágætlega sóttar. Í stuttu máli voru mörg tækifærin til að safnast saman og njóta ýmiskonar menningar, á tíðum all fjölbreyttrar. En þrátt fyrir það sem til staðar var þótti mörgum ýmislegt skorta, aðstaða mætti vera betri o.s.frv. Við spurningum í þá átt kom gjarnan það svar að fólksfjöldinn á svæðinu bæri ekki meira en það sem til staða væri.
Fólkinu fjölgar en …

Á síðastliðnum áratug hefur samfélagið á Héraði tekið allmiklum breytingum. Þar er ekki sísta breytingin sú að íbúunum hefur fjölgað, nokkuð sem ætti að styrkja stoðirnar undir öflugari menningarstarfsemi en til staðar var fyrir áratug. Því er ekki að neita að á ýmsum sviðum er menningarlífið nú blómlegt og sum svið þess hafa styrkst. Smærri sýningar eru alltíðar, t.d. ýmiskonar myndlistarsýningar, auk þess sem hér er starfandi lítið atvinnuleikhús og árlega er haldin stuttmyndahátíð, svo eitthvað sé nefnt.
Þær nýjungar sem hér hafa skotið rótum eru góðra gjalda verðar. Og væri hægt að tína þær til sem hreinar viðbætur við menningarflóruna eins og hún var fyrir rúmum áratug held ég að flestir gætu verið allsáttir við ástandið. En svo er því miður ekki. Nær allt sem upp var talið hér í upphafi nú fyrir bí. Bíórekstur er aflagður, veitingahús/skemmtistaðir eru ýmist einn eða enginn og samkomuhald í Valaskjálf er ekki lengur til staðar.
Samkomustaður og „menningarsetur“

Á sínum tíma seldu bæjaryfirvöld á Egilsstöðum félagsheimilið Valaskjálf fyrir slikk, en keyptu síðar á uppsprengdu verði sláturhúsræfil sem sannarlega mátti muna fífil sinn fegurri og var af flestum (bæði lærðum sem leikum) álitinn ónýtur og ekki til annars en að jafna við jörðu. Hann ber nú heitið Menningarsetur með ehf-i skeyttu aftan við og getur sú nafngift, rétt eins og fyrirhuguð endurbygging hússins, varla talist annað en grátbrosleg. Ég skil það vel í ljósi væntanlegrar miðbæjaruppbyggingar á Egilsstöðum að lóðin sem sláturhúsið stendur á skuli hafa verið eftirsóknarverð með menningarstarfsemi í huga. Öðru máli gegnir um húsið sjálft.
Það þekkist víða að listafólk fái tímabundið inni í húsnæði sem áður hýsti aðra starfsemi og setji þar upp sýningar eða annað sem flokka má sem menningu eða list. Að vinna að list í „öðruvísi“ húsnæði, sem setur starfseminni skorður vegna eðlis síns, getur verið áhugavert til skamms tíma. En slíkir annmarkar breytast fljótt í helsi og fráleitt er að bjóða upp á slíkt sem framtíðarlausn. Það hættir fljótt að verða sjarmerandi fyrir áhorfendur að sitja kappklæddir á grjóthörðum bekkjum í skítköldu og niðurníddu húsi við að fylgjast með listafólki sem þarf að eyða stórum hluta orku sinnar og tíma í að aðlaga list sína að óviðunandi aðstæðum.
Þau eru ófá dæmin sem tína mætti til um það þegar ráðist hefur verið í breytingar og endurbætur á gömlum og lélegum húsum að þá hafi kostnaðurinn rokið langt upp úr öllu valdi frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir. Að slíkt gerist virðist raunar frekar vera regla en undantekning og hefur niðurstaðan þá oft orðið sú að ódýrara (ég tala nú ekki um hagfelldara fyrir starfsemina!) hefði verið að byggja nýtt.
Enginn skyldi halda ég teldi Valaskjálf vera helgan stað eða nýtingu þess húsnæðis vera lausn allra menningarmála á Héraði. En það er hins vegar svo að Valaskjálf er sem stendur eina húsið sem er til þess fallið að hýsa stærri samkomur á Egilsstöðum. Skortur á slíkri aðstöðu er alvarlegt vandamál, alvarlegra en bæjaryfirvöld virðast gera sér grein fyrir. Það tjóar ekki fyrir forsvarsmenn bæjarins að yppa öxlum yfir ástandinu og benda á einkaaðila. Bæjaryfirvöld bera hér mikla ábyrgð. Fólk í sveitarfélaginu er mjög óánægt með ástandið og ýmsir, einkum yngra fólkið, veltir því fyrir sér hvort rétt sé að festa rætur í bæ sem ber ýmis einkenni svefnbæjar.
Svefnró eða menning?

Þó ég beini hér máli mínu einkum til bæjaryfirvalda er ábyrgð eigenda Valaskjálfar einnig mikil. Núverandi eigandi, þessa fyrrum félagsheimilis Héraðsbúa, hefur sagt að honum sé afar annt um svefnró hótelgesta sinna og því verði ekki haldnir dansleikir í húsinu.
Veturinn er jafnan fremur rólegur tími hjá hótelum á landsbyggðinni og hefur mér (sem starfa í næsta húsi við Valaskjálf) sýnst gestagangur þar hafa verið heldur lítill nú í skammdeginu. Hvað sem því líður ber það ekki vott um mikinn áhuga eða skilning á þörfum samfélagsins að eigandi Valaskjálfar gefi engan afslátt af fyrrgreindu markmiði sínu, ekki einu sinni fyrir starfsemi sem fer fram utan hefðbundins svefntíma. Er eigandi Valaskjálfar e.t.v. vísvitandi að stofna til „störukeppni“ við bæjaryfirvöld með það að markmiði að knýja þau til einhverskonar samninga, vitandi vits um erfiða stöðu bæjarins í þessu efni?
Hvað sem slíkum vangaveltum líður er staða þessara mála eftir sem áður slæm og menningarstarfsemin líður fyrir hana. Nú er t.d. ljóst að fara þarf með Barkann, söngkeppni menntaskólans, í fjölnotahúsið í Fellabæ, sem (með fullri virðingu fyrir því ágæta húsi) getur tæplega talist heppilegt tónleikahús.
Leikfélag menntaskólans er á hrakhólum með æfinga- og sýningahúsnæði. Það er í meira lagi kaldhæðnislegt að eftir árangurslausar tilraunir við að fá inni í Valaskjálf skuli félagið nú hafa fengið aðstöðu í húsnæði sem áður hýsti Trésmiðju Fljótsdalshéraðs sem varð gjaldþrota meðan hún var í eigu fyrrum eigenda Valaskjálfar.
Hrjótandi inn í framtíðina?

Fyrir fáum misserum var ákveðið að Fljótsdalshérað skyldi verða miðstöð sviðslista á Austurlandi. Er kinnroðalaust hægt að halda því fram að sveitarfélag þar sem tvö stærstu leikfélögin eru á hrakhólum og annað þeirra (Leikfélag Fljótsdalshéraðs) er að veslast upp vegna aðstöðuleysis, standi undir slíkum titli?
Þessu til viðbótar má nefna að það er vitanlega pínlegt í meira lagi að árshátíð sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs skuli þurfa að halda í Brúarási af þeirri augljósu ástæðu að ekki er til nægilega stór samkomusalur á Egilsstöðum eða í Fellabæ, þar sem yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem árshátíðan sækja starfa og búa.
Það blandast fáum hugur um að Egilsstaðir séu nokkurskonar miðstöð Austurlands, sumir myndu ganga svo langt að kalla bæinn höfuðstað fjórðungsins. Skortur á samkomustað, menningarhúsi eða hvað sem fólk kýs að kalla það stendur staðnum fyrir þrifum og er skammarlegur. Bráðabirgðalausnin til að brúa bilið (þar til alvöru menningarmiðstöð verður byggð) er til staðar – og þar á ég ekki við sláturhúsleifarnar. Haldi bæjaryfirvöld áfram að berja hausnum við sláturhúsvegginn óttast ég að afleiðingin geti orðið sú að enn meiri svefnbæjarbragur færist yfir bæjarlífið og menningin hér verði fábreytt og fyrir fáa.
Hrafnkell Lárusson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr heyr!

Eyja peyja (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 22:49

2 identicon

Já þetta hefur nú flest verið í umræðunni síðustu ár, og ég held það sé bara komið að bæjarbúum sjálfum að gera eitthvað í þessum málum. 

Ekki getum við endalaust beðið eftir að þessi bæjarstjórn geri eitthvað.

AndriR (IP-tala skráð) 24.2.2008 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Enn einn blogg-besservisinn

Tónlistarspilari

- Dagarnir

Höfundur

Guðmundur M Ásgeirsson
Guðmundur M Ásgeirsson
Höfundur er að austan.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...cover
  • ...braedslandv
  • n62116694017 8947
  • 04apr0409 pic30
  • 04apr0409 pic29

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband